Íslendingar á tímamótum

   Núna á nýju ári standa Íslendingar á tímamótum. Ekki bara það að nýtt ár hafi runnið í hlað, heldur að núna fer fyrir alvöru að reyna á hvort að íslenska þjóðin ætlar að láta ganga yfir sig af stjórnmálamönnum sem misst hafa tengslin við fólkið í landinu. Það er sama hvort að þessir þingmenn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, tengsl þeirra við almenning eru brotin. Þeir lifa í sínum eigin hugarheimi og þegar menn eins og Steingrímur Sigfússon tala um Icesave í þeim tón að það sé hans persónulega metnaðarmál að koma því í gegn þá fyrst er fokið í flest skjól.

   "Ég ber ábyrgð á Icesave, meðan lífsandann ég dreg,¨ sagði Steingrímur í lokaumræðum um Icesave. Ekki er hægt að fara lengra með hroka og þráhyggju þegar ráðherrar gera svona stór mál að þeirra einkamálum. Og hvílík vonbrigði með þessa ríkisstjórn. Hún forðast taka á fjármálum ríkisins nema með að keyra í gegn skattahækkanir sem fara beint út í verðlagið og hækka lánin okkar áfram. Þegar ég hef verið að hafa samband við þingmenn til að vara þá við því að með vísitöluna tegnda og renna skattahækkunum, hækkunum á vöruverði út um glugga alþingis, þá bregðast þeir við eins og reiðir hundar og tala um hótanir. Það er með öllu ómögulegt að ná að koma því inn í hausinn á þeim að verðtryggingin er að kyrkja íslensk heimili. Þessi svokallaða vinstri stjórn er ekkert annað en hópur af fólki sem veit ekki sitt rjúkandi ráð. Þau passa sig á því að skera ekkert niður, nema eins og að skerða dagpeninga gamalmenna.

   Íslenskir stjórnmálamenn eru kosnir af okkur, kannski er þetta þá okkur að kenna. En hvað þarf að gerast á Íslandi til að við getum komist upp úr þessum skítapytt sem við spólum í og komumst ekkert áfram. Það þarf skjótar ákvarðanir, kjark og hörku og ákveðni til að koma þeim í verk, strax. Ríkið verður að skera niður. Skera niður hjá sjálfu sér. Annars komumst við aldrei út úr þeirri kreppu sem við erum í. Og þau verða öll sem eitt að átta sig á því að ríkið er fólkið, fólkið er ríkið. Þau eru ekki þarna inni á Alþingi nema í okkar umboði. Og þau eru í vinnu hjá okkur öll sem eitt. Samt haga þau sér með þeim hætti að skelfilegt er að horfa á.

   Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er lögð í lokasprettinn. Hún endist ekki mikið lengur, vegna þess að henni hefur mistekist. Gjáin sem olli Janúar-byltingunni 2009 er að opnast aftur. Ríkisstjórn Jóhönnu mun ekki getað komið böndum á ríkisfjármálin, þau hafa ekki kjark til þess að skera niður hjá sjálfum sér. Gamla einkenni vinstri manna er að moka sköttum á heimilin sem eru að kikna undan afleiðingum hrunsins. Það getur ekki gengið, vegna þess að heimilin hafa ekki getu til að standa undir þessu. Í raun og veru er íslenska þjóðin gjaldþrota, ekki bara peningalega heldur á öllum sviðum. Siðferðilega og pólitískt. Það er eins og lýðræðið á Íslandi hafi brætt úr sér. Þetta er farið að minna á Weimer lýðveldið í Þýskalandi. Icesave samningarnir eru okkar Versalasamningar.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband